31 Maí 2013 12:00
Frá og með næst komandi mánudegi, 3. júní, verða öll ökuskírteini sem skráð verða hjá afgreiðslustöðum sýslumanna um landið framleidd hjá ungverska fyrirtækinu ANY Security Printing Company PLC í Búdapest.
Vegna aukinna krafna um öryggi og gæði ökuskírteina og upplýsinga á þeim í tilskipun Evrópusambandsins og reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011, mun ekki verða mögulegt að nýta þær passamyndir sem þegar er búið að skrá í ökuskírteinaskrána og verða allir sem sækja um nýtt ökuskírteini að skila nýrri passamynd með umsókninni.
Ökuskírteini verða pöntuð einu sinni í viku og verður skilað á afgreiðslustaðina sjö dögum síðar. Öryggismiðstöðin sem er samstarfsaðili ANY Security Printing Company PLC mun annast dreifingu skírteinanna.