11 Febrúar 2013 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú innbrot í íbúðarhúsnæði í umdæminu, þar sem stolið var skartgripum og öðrum munum, að heildarverðmæti á aðra milljón króna. Auk skartgripanna var meðal annars um að ræða hljóðnema, gítar og hljómborð. Sá eða þeir sem þar voru að verki höfðu spennt upp glugga á húsnæðinu sem snéri út að svölum. Húsráðandi kom að útidyrahurðinni ólæstri og grunaði þá þegar að ekki væri allt með felldu. Það fékk hann staðfest þegar inn var komið.
Lögregla biður fólk um að vera á varðbergi ef því býðst að kaupa flottar tónlistargræjur eða skartgripi með óhefðbundnum hætti.
Ók niður ljósastaur
Það óhapp varð um helgina í Keflavík að maður ók á ljósastaur með þeim afleiðingum að staurinn lagist við jörðu og bifreiðin var óökufær eftir áreksturinn. Einn farþegi var í bílnum og kvörtuðu bæði hann og ökumaður um eymsli eftir umferðaróhappið. Þeir voru fluttir til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þá hafði lögreglan á Suðurnesjum samband við Hitaveitu Suðurnesja og bað um að rafmagn á staurnum yrði aftengt.