15 Júní 2018 14:35

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maímánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

 

Skráð voru 740 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í maí sem er smávægileg fjölgun miðað við aprílmánuð. Tilkynntum innbrotum fjölgaði á milli mánaða. Tilkynnt var um 97 innbrot í maí, en 72 í apríl. Nytjastuldum fjölgaði einnig á milli mánaða. Í maí bárust færri tilkynningar um ofbeldis- og kynferðisbrot en höfðu borist að meðaltali mánuðina á undan. Skráðum umferðarlagabrotum fjölgaði hins vegar umtalsvert. Í maí voru skráð 3.856 umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu og hafa ekki verið skráð jafn mörg brot í einu mánuði frá því að samræmdar skráningar hófust hjá lögreglu árið 1999. Stærstur hluti þessar mála eru vegna of hraðs aksturs, eða tæplega 3.000 brot.

Viðbót 18. júní 2018: 

Þau mistök áttu sér stað við vinnslu síðustu mánaðarskýrslu að birtur var fjöldi umferðarlagabrota sem sagður var án brota sem náðust á hraðamyndavélar. Hið rétta er að tölur úr nýrri hraðamyndavél slæddust með. Réttur fjöldi umferðarlagabrota án myndavéla í maí var því 1.091 brot, eins og sjá má á mynd 1. Umferðarlagabrotum af frumkvæði lögreglumanna hefur fjölgað síðustu mánuði og voru brotin í maí nokkuð fleiri en þau hafa verið að meðaltali síðustu sex mánuði á undan.

Sé litið á fjölda umferðarlagabrota þar sem fjöld úr hraðavélunum er tekinn með má sjá að aldrei hafa jafn mörg umferðarlagabrot verið skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá því að samræmdar skráningar hófust árið 1999. Líkt og mynd1 sýnir var skráð 4.761 umferðarlagabrot í maímánuði á höfuðborgarsvæðinu. Eru það um 1.500 fleiri brot en skráð voru í október 2017, en það er sá mánuður þar sem næstflest umferðarlagabrot voru skráð. Af þessum 4.761 broti voru 3.836 brot vegna hraðaksturs og 3.670 brot voru mynduð með hraðavélum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.