2 Júní 2003 12:00
Ríkislögreglustjórinn hefur ákveðið að kaupa 16 lögreglubifreiðar á árinu 2003 fyrir lögegluna í landinu. Fyrsta bifreiðin var afhent lögreglustjóraembættinu á Snæfellsnesi þann 28. maí sl. Af þeim fjölda verða 8 sérbúnar Volvo S 80 bifreiðar með díselvél. Reynsla lögreglunnar af slíkum bifreiðum hefur verið afar góð. Þá verður í fyrsta skipti í ár gerð tilraun með að taka á rekstarleigu nokkrar fólksbifreiðar til almennra nota hjá lögreglunni. Bílamiðstöð ríkislögreglustjórans annast skipulagningu endurnýjunar ökutækja lögreglunnar og hefur umsjón með allri vinnu við ísetningu og frágang lögreglubúnaðar. Bifreiðarnar eru afhentar til lögregluembættanna með nýjum lögreglubúnaði og tilbúnar til notkunar. Allar lögreglubifreiðar á höfuðborgarsvæðinu eru nú með Tetra-fjarskiptakerfi og ferilvöktun.
Árið 1999 hafði ríkislögreglustjórinn umsjón með endurnýjun 28 lögreglubifreiða sem fóru til lögregluembættanna á landsbyggðinni. Á árinu 2000 var umsýsla og rekstur lögreglubifreiða á landinu sameinað undir stjórn ríkislögreglustjóra en það ár var endurnýjuð 41 lögreglubifreið en af þeim fjölda voru 26 bifreiðar afhentar lögreglustjóranum í Reykjavík. Alls hafa verið endurnýjuð 134 ökutæki lögreglunnar síðastliðin 4 ár, þar af 6 sérbúin lögreglubifhjól. Lögreglubifreiðar eru nú 162 á öllu landinu.
F.v. Jón M.Gunnarsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóranum, Agnar Hannesson, þjónustustjóri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjórans og Ólafur Guðmundsson yfirlögregluþjónn á Snæfellsnesi