2 Júní 2003 12:00
Í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga er að finna grein eftir Helga Gunnlaugsson prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og Rannveigu Þórisdóttur félagsfræðing hjá ríkislögreglustjóranum. Í greininni eru kynntar niðurstöður tveggja rannsókna á mati á eigin öryggi sem framkvæmdar voru af lögreglustjóranum í Reykjavík og Gallup annars vegar í júní 2001 og hins vegar í október og nóvember sama ár. Fram kemur að mat á eigin öryggi í miðborg Reykjavíkur jókst marktækt á milli mælinga. Í júní 2001 sagðist minna en þriðjungur vera mjög eða frekar öruggur einn á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir miðnætti en í október/nóvember var sambærilegt hlutfall rúmlega 40%. Jafnframt sögðu fleiri ótta við afbrot ástæðu þess að þeir hefðu ekki verið einir á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir miðnætti í júní en um haustið. Í greininni eru möguleg áhrif fjölmiðlaumfjöllunar á mat á eigið öryggi metin. Skoðaðar voru fyrirsagnir allra greina sem birtust í Morgunblaðinu á tímabilinu og fjölluðu um miðborgina. Í ljós kom að í kringum fyrri rannsóknina voru tæplega 85% frétta og greina um miðborgina tengdar neikvæðri umræðu er snýr að afbrotum. Sambærilegt hlutfall var mun minna eða 10% á tímabilinu milli rannsóknanna og 28% í kringum seinni rannsóknina. Niðurstöðurnar styðja þá kenningu að umfjöllun fjölmiðla geti haft áhrif á öryggiskennd því ekki varð vart marktækra breytinga hvað varðar fjölda ofbeldismála í miðborginni hjá lögreglu á þessu tímabili. Áhrifin eru þó ekki endilega langvinn og ekki er hægt að útiloka að fleiri þættir en umfjöllun fjölmiðla geta haft áhrif á mat borgaranna á öryggiskennd.