13 Júlí 2015 16:12

Nýlega kom upp mál þar sem bjarga varð konu úr köldum sjónum við Sæbrautina. Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra voru staddir í húsnæði ríkislögreglustjóra við Skúlagötu þegar þeir heyrðu hróp koma frá grjótbakkanum við Sæbrautina.  Þegar þeir litu út um gluggann sáu þeir tvo menn standa á grjótbakkanum og að því er virtist manneskja í sjónum á sundi nokkuð frá landi.

Þeir hlupu strax út og komu þá auga á einstakling í sjónum um 50 metra frá landi.  Mennirnir á bakkanum sögðu þetta vera konu sem þeir hefðu reynt að telja af því að fara í sjóinn án árangurs.  Sérsveitarmennirnir tveir óskuðu þegar eftir frekari aðstoð lögreglu og sjúkraliðs og annar þeirra hljóp til baka í aðstöðu sérsveitar til að ná í þurrbúning.

Þá sér sérsveitarmaðurinn hvar konan hættir að synda og virðist vera sem hún hafi gefist upp og væri við það að drukkna.  Hann fór þá úr lögreglusamfestingnum og synti út á eftir konunni sem svaraði engu þegar til hennar var kallað.  Þegar hann kom að konunni í sjónum gerði hún enga tilraun til að synda að landi heldur þurfti sérsveitarmaðurinn að taka hana í björgunarsund og synda með hana að landi.  Eftir talsvert sund kom hinn sérsveitarmaðurinn til baka og fór hann út í sjóinn til aðstoðar félaga sínum við að bjarga konunni í land.  Þá voru fleiri lögreglumenn og sjúkralið komnir á vettvang til aðstoðar.  Ekki gafst tími fyrir björgunarmenn að fara í þurrbúninga við þessa björgun og mikið mildi að ekki fór verr í þetta sinn í köldum sjónum.

 

Mynd úr safni sérsveitar af köfurum sveitarinnar við störf.kafarar