14 Ágúst 2017 08:30
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlímánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 664 tilkynningar um hegningarlagabrot í júlí. Eru það álíka margar tilkynningar og bárust í júní. Tilkynnt var um 52 innbrot í júlí og hefur þeim fækkað nokkuð undanfarna mánuði og voru um 25 prósent færri miðað við meðalfjölda síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Tilkynningum um nytjastuldi fjölgaði talsvert í júlí miðað við sl. tvo mánuði á undan. Sé fjöldi nytjastulda og fjöldi þjófnaða á ökutækjum tekinn saman má sjá þónokkra fjölgun á milli mánaða. Samtals var tilkynnt um 43 þjófnaði eða nytjastuldi á ökutækjum í mánuðinum. Fjölgunin skýrist að miklu leyti af fjölgun þjófnaða á vespum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill minna eigendur slíkra tækja að vera á varðbergi og ganga tryggilega frá bifhjólunum.