8 Október 2018 14:49
Allmargir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur um helgina í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Sá sem hraðast ók mældist á 167 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og þarf að greiða 240 þúsund krónur í sekt, auk þess sem hann fær þrjá punkta í ökuferilsskrá. Hann kvaðst hafa verið að flýta sér til að ná flugi.
Annar ökumaður, erlendur ferðamaður, sem einnig ók of hratt reyndist jafnframt vera undir áhrifum áfengis við aksturinn. Hann greiddi sekt að upphæð ríflega 220 þúsund krónur vegna hrað – og ölvunaraksturs áður en hann yfirgaf landið.
Loks hafði lögregla afskipti af ökumanni sem kvaðst ekki geta framvísað ökuskírteini sínu þar sem það væri týnt og yrði hann að fara til heimalandsins til að sækja nýtt skírteini. Í ljós kom að maðurinn hefur leikið þennan leik nokkrum sinnum áður og verið kærður fyrir að aka réttindalaus. Svo var einnig gert í þetta skipti.