29 September 2014 12:00
Um klukkan hálf tíu í morgun barst lögreglu tilkynning um mannlausa bifreið á Óseyrarbrú. Við nánari skoðun benti ýmislegt til að maður sem hafði verið í bifreiðinni hefði fallið af brúnni í ána. Þegar í stað voru björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðar út til leitar ásamt sveitum af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra, Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og björgunarsveitum voru til taks á leitarsvæðinu sem var beggja megin Ölfusáróss. Rúmlega hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni sem bar árangur þegar klukkan var rétt gengin tvö er maðurinn fannst látinn í förunni á Óseyrartanga um 300 metra vestan við veitingastaðinn Hafið bláa.
Skilyrði til leitar voru mjög erfið vegna hvassviðris, rigningar og mikils sandfoks. Ekki var hægt að notast við þyrlu vegna þess en hún var í viðbragðstöðu. Lögreglan á Selfossi þakkar björgunarsveitarönnum, köfurum og öðrum sem með einhverjum hætti komu að leitinni. Þá er þökkum komið til eiganda Hafsins bláa sem opnuðu veitingastaðinn þegar eftir því var leitað og veittu leitarfólki húsaskjól og hressingu án endurgjalds.