3 Október 2017 10:35
Frá og með mánudeginum 25. september til og með sunnudagsins 1. október s.l hafa 42 ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Í einu tilfellinu ók erlendur ferðamaður bifreið sinni fram úr eftirlitsbifreið „pundaranna“ okkar, já risastór og vel merktur sendibíll með bláum ljósum og borðalagður allan hringinn, sem fer ekki framhjá neinum. Síðan fram úr tveimur öðrum bifreiðum og þar á stað þar sem framúrakstur var bannaður og það gefið til kynna með óbrotinni línu. Á þeim stað mældist hraði bifreiðar hans 120 km/klst. Ökumaðurinn, karlmaður frá Mexíkó, greiddi sekt sína á vettvangi eftir að hafa fengið lán hjá samferðamanni sínum þar sem inneign hans dugði ekki. Hann fór síðan frjáls ferða sinn, nokkurs vísari um umferðarlög á Íslandi og hvað ber að varast í umferðinni.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur bifreiða sinna. Báðir á Selfossi. Þrír voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, tveir þeirra á Selfossi og einn við Skeiðavegamót. Sá reyndist einnig ökuréttindalaus eftir að hafa verið sviptur ökurétti vegna fyrri brota.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka hopbifreið án þess að hafa ökumannskort til þess í ökurita. Annar var þýskur ríkisborgari með s.k. Bandalagsleyfi en kvaðst hafa fengið upplýsignar um að á Íslandi þyrfti ekki ökuritakort. Því hafi komið honum á óvart að bifreiðin væri búin ökurita. Hann lauk máli sínu með sekt. Hinn kvaðst hafa nýlokið meiraprófsnámskeiði og vissi bara ekki til þess að hann þyrfti að nota ökumannskort í ökurita eða að það hafi verið nefnt á námskeiðinu. Sá var sektaður líka.
6 ökumenn voru kærðir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.
Klippt var af 5 bifreiðum vegna þess að þær reyndust ótryggðar í umferð.
Bifreið var ekið á miklum hraða á handrið Ölfusárbrúar aðfaranótt 30. september s.l. Ökumaður hljóp af vettvangi en gaf sig fram við lögreglu rúmlega 4 tímum seinna. Hann reyndist sviptur ökuréttindum. Ekki er grunur um að hann hafi verið ölvaður eða undir áhrifum fíkniefna en sjálfur taldi hann að hraði bifreiðarinnar hafi verið um 100 km/klst þegar slysið varð.
Þyrla sótti slasaðan farþega bifreiðar sem valt norðan Hlöðufells að kvöldi 29. september. Hann var með höfuðáverka en mun hafa sloppið betur en á horfðist.
9 önnur slys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.
5 tilkynningar bárust í vikunni um að greitt hafi verið fyrir vörur eða þjónustu á Selfossi og í Hveragerði með fölsuðum 5.000.- krónu seðlum. Fólk er hvatt til að vera á varðbergi vegna þessa en fleiri mál sama eðlis hafa komið upp á liðnum vikum í umdæmum í kring um okkur. Seðlarnir eru ágætlega prentaðir en við skoðun er fölsunin augljós berum augum.
Aðfaranótt laugardagsins 23. september um kl. 02:40 varð maður fyrir líkamsárás fyrir utan veitingastaðinn Frón á Selfossi. Hann er tannbrotinn eftir árásina. Þess er óskað að þeir sem hafi hugsanlega orðið vitni að átökum manna inni á staðnum eða þar fyrir utan á þessum tíma hafi samband við lögregluna á Suðurlandi í síma 444 2000, á Facebook eða með tölvupósti á sudurland@logreglan.is
Miklum flóðum á Austurlandi hefur verið gerð skil nokkuð jöfnum höndum eftir því sem fram vindur en aðdáunarvert er að fylgjast með framvindu brúarsmíði yfir Steinavötn og nú þegar ljóst að met verða slegin í þeim efnum hvað tímalengd varðar.