4 Október 2011 12:00
Þann 7. september síðastliðinn veittust þrír ungir menn að 10 ára dreng í skrúðgarðinum í Þorlákshöfn. Atvikið átti sér stað á milli klukkan 18:00 og 19:00. Talið er að ungu mennirnir hafi verið á vínrauðum skutbíl. Á þeim er gefin eftirfarandi lýsing. Einn þeirra er talin 170 til 175 sentimetrar á hæð, stærstur þeirra, með mikið hár og topp greiddan til hliðar. Sá var klæddur í svarta peisu og hvíta skó. Annar var þybbinn, ljóshærður með stutt hár klæddur í rauða hettupeisu og bláar gallabuxur. Þriðji maðurinn var ljósbrúnn á hörund með dökkt hár í hvítum bol. Mennirnir veltu drengnum upp úr moldinni og þvinguðu hann til að reykja sígarettu. Lögreglan á Selfossi er með málið til rannsóknar og sárvantar vitni. Hver sá sem hugsanlega hefur orðið vitni að þessum verknaði eða býr yfir einhverjum upplýsingum um hann er beðinn að hafa samband við lögregluna í síma 480 1010.