24 Ágúst 2007 12:00
Leit að tveimur þýskum ferðamönnum hefur enn engan árangur borið. Leitarhópar frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar leita nú mannanna á og í nágrenni Svínafellsjökuls þar sem tjöld mannanna fundust í gær. Svæðið er afar erfitt yfirferðar og reynir mikið á leitarmenn.
Vegna lélegs skyggnis í nótt var hætt við að senda hóp sem ráðgert var að færi af stað á Hvannadalshnjúk í nótt. Í morgunsárið létti til og nú er fínt veður í Skaftafelli og gott skyggni.
TF-EIR fór í loftið í morgun og leitaði mögulegar klifurleiðir frá tjöldum mannanna á Hvannadalshnjúk sem og leiðina á Hrútsfjallstinda.
Ráðgert er að halda leitinni áfram af fullum krafti um helgina og í dag og kvöld munu fjallabjörgunarhópar víðs vegar af landinu bætast á svæðið til að taka þátt í leitinni.
Aðgerðinni er stýrt frá Samhæfingastöðinni í Skógarhlíð af landsstjórn björgunarsveita og fulltrúa Ríkislögreglustjórans sem er með forræði aðgerðarinnar í samráði við Lögreglustjórann á Eskifirði.
Við stjórn á vettvangi er fulltrúi Ríkislögreglustjórans og svæðisstjórn björgunarsveita.
Ríkislögreglustjórinn
Slysavarnafélagið Landsbjörg
Lögreglustjórinn á Eskifirði