21 Júlí 2010 12:00
Lögreglan á Selfossi gerði í gærkvöldi húsleit í íbúðar- og útihúsum á sveitabæ í Hrunamannahreppi. Tilefni leitarinnar var að upplýsingar höfðu borist um að þar á bæ færi fram landabruggun. Við leitina fundust um 800 lítrar af gambra og um 100 lítrar af landa sem að styrkleika virðist um 35 %. Jafnframt fannst mikið magn tækja og tóla til framleiðslunnar auk tilheyrandi efna sem í hana þarf. Ábúendur á bænum, sem báðir eru á sjötugsaldri og hafa áður orðið uppvísir af slíkri iðju, voru handteknir og yfirheyrðir á lögreglustöðinni á Selfossi og er rannsókn málsins á lokastigi. Það verður síðan sent ákæruvaldinu til meðferðar.