5 Janúar 2009 12:00
Ríkislögreglustjóri hefur birt niðurstöður könnunar á streitu og líðan lögreglumanna sem gerð var á síðasta ári. Markmið könnunarinnar var að ná fram eins konar grunnmati á verkefnatengdri (operational, PSQ-Op) og stjórnsýslulegri (organizational, PSQ-Org) streitu hjá lögreglumönnum. Að auki var ákveðið að meta kvíða- og depurðareinkenni hjá lögregluönnum en einnig lífsánægju.
Könnunin er sú fyrsta sem gerð hefur verið í þessari mynd en hún byggir á kanadískri rannsókn þar sem í fyrsta sinn var hannaður spurningalisti til að meta bæði verkefnatengda og stjórnsýslulega þætti. Með verkefnatengdum þáttum er átt við vaktavinnu, kröfu um yfirvinnu, neikvæðar athugasemdir frá almenningi og að eignast vini utan lögreglunnar, svo dæmi séu tekin. Með stjórnsýslulegum þáttum er til dæmis átt við að eiga samskipti við starfsfélaga, skort á starfsfólki, of mikla tölvuvinnu og ósamkvæman stjórnunarstíl.
Helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að meðaltal fyrir stjórnsýslulega og verkefnatengda streitu er lítillega lægra en hjá viðmiðunarhópi sem samanstóð af 197 kanadískum lögreglumönnum. Þegar munur milli þátttakenda af landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu (LRH og RLS) er skoðaður kemur fram að þátttakendur á höfuðborgarsvæðinu voru stressaðri, þeir höfðu fleiri einkenni depurðar og kvíða en þátttakendur á landsbyggðinni, sem hafa það umfram félaga sína á höfuðborgarsvæðinu að vera örlítið hamingjusamari.
Skýrsluna má nálgast hér.