18 September 2012 12:00
Fólki, sem hafði skroppið til útlanda, brá heldur en ekki í brún þegar það kom heim til sín eftir nokkra fjarveru. Í íbúð mannsins og konunnar var alls konar dót sem þau könnuðust ekkert við og átti alls ekki að vera þar. Um var að ræða ýmis konar verkfæri, þar á meðal loftpressu og veltisög, sem húsráðendur töldu vera þýfi. Þeir höfðu því samband við lögregluna á Suðurnesjum. Í ljós kom að hluta af verkfærunum hafði verið stolið úr vinnuskúr við Bláa lónið, þar á meðal naglabyssu, járnklippum og hleðsluborvél. Lögregla rannsakar málið.
Titrandi bakpoki
Starfsmenn öryggisgæslunnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar urðu um helgina varir við titring í bakpoka á flughlaði við flugstöðina. Þeir höfðu samband við lögregluna á Suðurnesjum og tilkynntu henni um málið. Í ljós kom að topphólf pokans lét eitthvað ófriðlega og reyndist sökudólgurinn vera rafmagnsrakvél sem hrokkið hafði í gang. Eftir að slökkt hafði verið á henni var pokinn klár í loftið og hélt ásamt eiganda sínum til Kaupmannahafnar.
Bíll rispaður og skorið á dekk
Bifreið sem stóð á plani við verkstæði í Reykjanesbæ varð illa fyrir barðinu á skemmdarvörgum í gær. Þeir höfðu skorið á hægra afturdekk og vinstra framdekk. Þá var búið að rispa orðið svín á bílstjórahurð og farþegahurð á vinstri hlið bílsins. Þá tilkynnti eigandi annarrar bifreiðar um að brotið bjórglas hefði verið á vélarhlíf hennar, þegar að var komið, og var bíllinn rispaður og dældaður. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málin.