7 Ágúst 2014 12:00
Jón Kristinn Þórsson, lögreglumaður í sérsveit ríkislögreglustjóra, þreytti hið sögufræga Grettissund, nú kallað Drangeyjarsund, þann 28. júlí. Jón synti frá fjörunni í Drangey til lands að Reykjadisk, alls 7 km. Sundið tók slétta þrjá tíma en veðrið var ekki með besta móti, talsverður sjór og straumar. Jóni til aðstoðar voru félagar hans í lögreglunni en þeir fylgdu honum á bát alla leiðina. Hiti sjávar var 9 gráður og klæddist Jón sundskýlu og var með sundhettu.
Þrír aðrir lögreglumann hafa synt þetta sund áður. Árið 1927 synti Erlingur Pálsson fyrstur manna á eftir Gretti Ásmundarsyni að því að talið er. Eyjólfur Jónsson synti árið 1957 og 1959 og Axel Kvaran synti Drangeyjarsund árið 1961. Talið er að um sextán manns hafi synt milli Drangeyjar og lands frá því að Grettir Ásmundarson synti Grettissund.