8 Desember 2009 12:00
Í nótt var brotist inn í Vínbúðina í Hveragerði og þaðan stolið áfengi. Um kl. 00:35 bárust boð um innbrot í Vínbúðina sem er til húsa hjá N1 við Breiðumörk. Þegar lögregla kom á staðinn var opinn hurð og ljóst að brotist hafði verið inn í verslunina. Enginn var þar inni en ljóst að áfengi hafði verið stolið. Á öryggismyndavélum sást er tveir menn komu að húsinu og spenntu upp hurð á lager. Síðan koma þrír menn til viðbótar sem fóru inn. Mennirnir huldu allir andlit sitt og voru með hanska á höndum. Slóð þjófanna var rakin að Suðurlandsvegi þar sem þeir hafa lagt bifreið, sem þeir hafa verið á, meðan þeir fóru í innbrotið. Þrátt fyrir leit og eftirgrennslan fannst bifreiðin ekki. Talið er að þjófarnir hafi haft á brott með sér um átta til níu kassa af sterku áfengi. Allar líkur eru á að þarna hafi verið um skipulagt innbrot að ræða. Lögreglan biður alla þá sem veitt hafa athygli bifreið vestan við hringtorgið á Suðurlandsvegi við Hveragerði á tímabilinu frá kl. 00:00 00:35 að hafa samband í síma 480 1010.