20 Júní 2007 12:00
Lögreglan á Sauðárkróki hafði í nógu að snúast um liðna þjóðhátíðarhelgi.
Föstudagskvöldið 15. júní var gerð húsleit í geymsluhúsnæði á Hofsósi að vörubifreið sem talið var að hefði verið skotið undan nauðungarsöluaðgerðum sem fram áttu að fara fyrir rúmu ári síðan. Fulltrúi sýslumanns ásamt lögreglumönnum mættu á staðinn, en fyrir lá úrskurður héraðsdóms um heimild til leitar. Bifreiðin fannst við leitina og var einn maður handtekinn vegna málsins.
Fyrr um daginn var gerð húsleit í íbúð á Sauðárkróki þar sem grunur lék á að fram færi sala og neysla fíkniefna. Við leitina fundust ætluð fíkniefni og tól og tæki til fíkniefnaneyslu. Húsráðandi hefur áður komið við sögu vegna fíkniefnamála.
Um tíuleytið um kvöldið stöðvuðu lögreglumenn á eftirlitsferð í Blönduhlíð unga stúlku vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, og var hún færð á lögreglustöð til yfirheyrslu. Skömmu síðar kom unnusti stúlkunnar akandi á bifhjóli á lögreglustöðina til þess að sækja bifreiðina, sem hann var eigandi að. Ástæða þótti til að láta hann gangast undir svokallað Drugwipe fíkniefnapróf, með þeim árangri að prófið gaf svörun við kannabisefni. Maðurinn var umsvifalaust handtekinn og látinn gangast undir skýrslutöku og töku blóð- og þvagsýnis til frekari rannsóknar.
Aðfararnótt mánudagsins 18. júní sáu lögreglumenn á eftirlitsferð hvar maður á reiðhjóli við Árskóla á Sauðárkróki kastaði frá sér hlutum þegar hann varð lögreglu var og lagði á flótta. Lögreglumenn eltu hann uppi og framkvæmdu á honum líkamsleit, en við þá leit fannst ætlað amfetamín. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð til yfirheyrslu.
Þann 18. júní mældi lögreglan ökumann bifreiðar sem ók eftir Norðurlandsvegi á 155 kílómetra hraða á klukkustund. Ástæða þótti til að framkvæma fíkniefnapróf á ökumanninum, og gaf prófið jákvæða svörun við amfetamíni og kannabis. Hann var því færður á lögreglustöð til skýrslugjafar auk þess sem tekið var úr honum blóð og þvag til frekari rannsóknar.
Að kvöldi þriðjudagsins 19. júní urðu lögreglumenn varir við einkennilegt aksturslag ökumanns á bifhjóli á Norðurlandsvegi við Varmahlíð. Framkvæmt var fíkniefnapróf á ökumanninum, sem gaf svörun við amfetamíni. Ökumaðurinn var því handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður, auk þess sem honum var gert að gangast undir töku blóð- og þvagsýnis.
Að gefnu tilefni skal því beint til vegfarenda að allur akstur undir áhrifum fíkniefna er stranglega bannaður samkvæmt lögum. Samkvæmt nýlegri lagabreytingu mega ökumenn nú búast við að verða sviptir ökurétti ef fíkniefni finnast í blóði þeirra eða þvagi, og gildir þá einu hversu lítið magn er um að ræða. Lögreglan hefur heimild til þess að láta alla ökumenn sem hún hefur afskipti af í umferðinni gangast undir fíkniefnapróf.
Þess ber að geta að frá áramótum hafa um 500 ökumenn verið stöðvaðir af lögreglunni í Skagafirði vegna hraðaksturs og annarra umferðarlagabrota. Það er því ljóst að þeir sem stunda hraðakstur í umferðinni eru ekki hólpnir þegar þeir koma í Skagafjörðinn, þótt þeir sleppi við hina alræmdu Blönduóslögreglu í Húnavatnssýslunum.