29 September 2004 12:00
Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans auk lögreglumanna frá lögreglunni í Reykjavík, á Ísafirði, Selfossi, Hafnarfirði og Keflavík gerði í gærkvöldi þriðjudaginn 28. september húsleitir hjá 12 einstaklingum. Í aðgerðunum tóku þátt á fjórða tug lögreglumanna og lögfræðinga. Húsleitirnar voru gerðar í tengslum við mál sem nú er rannsakað af efnahagsbrotadeild vegna gruns um stórfelld brot gegn höfundarlögum. Þeir einstaklingar sem leitir voru gerðar hjá voru yfirheyrðir í gærkvöld og hald lagt á allan tölvubúnað þeirra vegna sönnunargildis hans og með það fyrir augum að krefjast upptöku á honum í væntanlegum refsimálum á hendur þeim.
Húsleitirnar voru gerðar hjá stjórnendum og stórum þátttakendum í hópi sem skipst hefur á efni á netinu. Skipti þessi hafa verið gerð með því að nota forritið DC++ sem er svo kallað skráaskiptaforrit sem gerir þeim sem það nota mögulegt að deila milli sín, eða opna sameiginlegan aðgang að, efni sem vistað er á tölvum hvers og eins meðlims. Hópurinn hefur með því að nota framangreindan hugbúnað aðgang yfir internetið að geymsluplássi á tölvum allra annarra í hópnum og getur hver meðlimur sótt þangað allt það efni sem hann lystir og boðið er upp á með því að tengjast inn á tölvu viðkomandi beint. Hugbúnaðinn notuðu sakborningar til að halda úti lokuðu kerfi á internetinu þar sem þeir deildu mörgum þúsundum af kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tónlistardiskum, forritum og tölvuleikjum. Tækni þessi er kölluð peer to peer.
Í þessum lokaða hópi voru u.þ.b. 100 þátttakendur sem buðu í mismiklum mæli öðrum í hópnum beinan aðgang að höfundarréttarvörðu efni, gegn því að fá aðgang að efni hinna á sama hátt. Stærsti þátttakandinn hafði upp á að bjóða rúm 2,5 terabæti af efni, sem er 2.500 gígabæt, og jafngildir því geymsluplássi sem finna má í 15 til 20 venjulegum heimilistölvum. Samtals deildu þeir einstaklingar sem lögregla hafði afskipti af í gær rúmum 11 terabætum af efni sem lögregla hefur lagt hald á. Hópurinn allur deildi með sér efni sem lætur nærri að hafa verið nálægt 100 terabæti í það heila.
Tveir hinna grunuðu gistu fangageymslur í nótt vegna rannsóknar málsins.
Upplýsingar veitir Jón H. Snorrason saksóknari í síma 899 1589.
Ríkislögreglustjórinn, 29. september 2004.