19 Mars 2021 16:59
Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi:
Orðið hefur vart við hreyfingu á einum speglanna sem notaðir eru til þess að fylgjast með hreyfingu jarðlaga við upptök skriðunnar sem féll úr Botnabrún á Seyðisfirði þann 18. desember sl. milli Búðarár og Stöðvarlækjar. Spegill þessi er skammt ofan innanverðra skriðuupptakanna. Gera má ráð fyrir að það hrynji úr bröttu brotstáli stóru skriðunnar á næstu mánuðum meðan jarðlög þar leita nýs jafnvægis og er hreyfingin nú túlkuð sem hluti af þessu ferli. Fyrirséð var að þetta myndi gerast eins og fram hefur komið á íbúafundum. Ekki er gert ráð fyrir hættu í byggð af þessum völdum en hreyfingin er tilefni til þess að gæta sérstakrar varúðar við vinnu á skriðusvæðinu . Þykir og rétt að vara við ferðum gangandi í hlíðinni undir upptökum stóru skriðunnar í desember. Reistir hafa verið varnargarðar ofan íbúðarhúsa næst skriðusvæðinu sem draga úr hættu á því að frekari skriðuföll úr upptökum stóru skriðunnar skapi hættu í byggðinni.
Rauntímavöktun Veðurstofu er á mælum í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar.