2 Febrúar 2009 12:00
Hraðbanka frá Sparisjóði Suðurlands var stolið úr verslunarmiðstöðinni Sunnumörk í Hveragerði aðfaranótt sunnudags. Þjófnaðurinn uppgötvaðist um kl. 11 í gærdag og var þegar tilkynnt um hann til lögreglu. Við rannsókn málsins var leitað eftir aðstoð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins þar á meðal tæknideildar sem rannsakaði vettvang. Í nótt handtók Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átta aðila sem taldir voru tengjast þjófnaðinum á hraðbankanum. Hraðbankinn fannst í bifreið sem nokkur hinna grunuðu voru í. Einum af þeim átta sem handteknir voru í nótt var sleppt eftir yfirheyrslu. Lögreglumenn frá Selfossi vinna að rannsókn málsins með aðstoð lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er hægt að upplýsa um upphæðina sem var í hraðbankanum.