12 Maí 2015 10:55
Tvær ungar stúlkur á ljóslausri rafmagnsvespu bar fyrir augu lögreglumanna á Suðurnesjum sem voru á eftirlitsferð í umdæminu aðfararnótt sunnudagsins síðasta. Þegar nær dró kom enn fremur í ljós að þær voru hjálmlausar og vafðar inn í teppi. Lögregla tók þær tali og glömruðu þá í þeim tennurnar af kulda því þær voru klæddar stuttbuxum og sandölum undir teppunum. Stelpurnar sögðust vera á leiðinni í 10/11 til að kaupa sér nammi og vissu að þær væru að brjóta reglur um útivistartíma. Þar sem þær voru hálf frosnar af kulda var gripið til þess ráðs að fara með þær á lögreglustöð, þar sem þeim var gefið heitt kakó og rætt betur við þær. Voru þær afar leiðar yfir að hafa brotið reglur. Að því búnu var forráðamönnum þeirra gert viðvart um þetta ferðalag þeirra.