3 Febrúar 2020 11:50

27 ökumenn voru kærðir af lögreglunni á Suðurlandi í liðinni viku fyrir að aka of hratt. Einn var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis og þrír kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti. Þá var einn kærður fyrir að nota ekki lögboðinn öryggis og verndarbúnað fyrir barn sem var farþegi í bifreið hans. Sá var að skila barni sínu á leikskóla í uppsveitum Árnessýslu.

Einn ökumaður var í tvígang kærður fyrir að aka þrátt fyrir að vera í akstursbanni  vegna fyrri brota. Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs þeirra sviptir ökurétti og þrír reyndust með útrunnin ökuréttindi. Af þeim voru tveir atvinnubílstjórar við vinnu sína.

Tveir atvinnubílstjórar voru kærðir fyrir að aka án ökumannskorts í ökurita.

22 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu, flest án meiðsla og ekki um að ræða alvarleg meiðsl í neinu þeirra. Í tveimur tilfellum var um að ræða árekstur á eða við einbreiðar brýr austantil í umdæminu, annarsvegar við Breiðbalakvísl austan Kirkjubæjarklausturs þar sem árekstur varð með tveimur bifreiðum þann 27. janúar án þess þó að eignatjón yrði þann og hinsvegar við Hoffellsá vestan Hafnar þann 1. febrúar en báðar bifreiðar í því óhappi reyndust óökufærar og eignatjón því töluvert.

Tvö mál komu upp í vikunni þar sem tilkynnt var um vasaþjófnað við Geysi.   Full ástæða er fyrir ferðaþjónustuaðila að vara fólk sitt við þessu en mál sem þessi koma alltaf af og til upp.

Á síðunni https://sektir.logreglan.is/ er hægt að fá upplýsingar um sektir og önnur viðurlög við brotum á umferðarlögum. Þá er óvitlaust, svona þegar við erum að keyra börnin í og úr leikskóla og e.a. grunnskóla að hlusta á upplestur í Umferðaskólanum á Spotify en Samgöngustofa er búin að gefa það efni út þar.   Skemmtilegar sögur og gott innlegg í spjallið við börnin.