13 Ágúst 2018 14:19
Einn þjófnaður var tilkynntur lögreglu í liðinni viku en um var að ræða þjófnað á einnota drykkjarumbúðum sem voru geymdar í plastkörum á bak við veitingahúsið Gott v/Bárustíg. Talið er að þjófnaðurinn hafi átt sér stað að kvöldi 4. ágúst eða aðfaranótt 5. ágúst sl. Ekki er vitað hver eða hverjir þarna voru að verki og óskar lögreglan eftir upplýsingum um grunsamlegar mannaferðir við veitingahúsið Gott á umræddu tímabili.
Eitt fíkniefnamál kom upp í liðinni viku en við leit lögreglu í heimahúsi aðfaranótt 11. ágúst sl. fannst smáræði af kókaíni. Húsráðandi viðurkenndi að eiga efnin og telst málið því að mestu upplýst.
Tvær kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum og var í báðum tilvikum um að ræða kæru vegna notkunar á farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur.