8 Mars 2016 14:54

FÁ UMFERÐARÓHÖPP. Aðeins urðu þrjú umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku. Tvö á Snæfellsnesvegi og eitt á Heydalnum.

Bílvelta varð við Þverá á norðanverðum Heydalsvegi, ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, slapp á mikilla meiðsla. Fólksbíllinn snerist á hálkubletti og lenti á brúar handriðinu sem fór af við áreksturinn, bíllinn valt á veginum og skemmdist mikið. Óhöppin á Snæfellsnesveginum voru bæði minniháttar og án meiðsla.

UPPLÝST INNBROT. Brotist var inn á nokkrum stöðum í Hvalfirði í sl. viku og munum þar stolið og unnar töluverðar skemmdir á húsnæði.  Í samvinnu hafa lögreglan á Vesturlandi og lögreglan á Suðurlandi náð að upplýsa hverjir voru þarna að verki en viðkomandi höfðu einnig brotist inn á Suðurlandi.

ÓLÖGLEG BÍLALEIGA. Lögreglan hafði afskipti af ökumanni sem aðspurður sagðist vera á bílaleigubíl. Við athugun kom í ljós að maðurinn hafði tekið bílinn á leigu frá aðilum sem að auglýstu á netinu en voru ekki með leyfi fyrir bílaleigu.  Málið var sent á höfuðborgarsvæðið til frekari rannsóknar.

ÖLVUNARAKSTUR. Einn ökumaður var tekinn fyrir meinta ölvun við akstur.

SEKTIR. Nokkrir ökumenn voru sektaðir fyrir rangstöður innanbæjar og nokkrir aðrir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur. Þá voru all nokkrir teknir fyrir of hraðan akstur, flestir þeirra komu inn á of miklum hraða í sjálfvirka hraðamælingu myndavélanna í umdæminu.