19 Janúar 2016 14:02
Alls var tilkynnt um fimm umferðaróhöpp í umdæmi LVL í liðinni viku, fjögur þeirra urðu á Akranesi, flest minniháttar og án meiðsla. Í einu þeirra var fólksbifreið ekið utaní umferðarskilti sem er við hringtorgið fyrir utan lögreglustöðina, þar hafði ökumaður líklega dottað undir stýri.
Aðfaranótt sl. mánudags var Lögreglunni á Vesturlandi tilkynnt um umferðaróhapp á Vesturlandsvegi við Galtarholt norðan Borgarness. Þar hafði pallbifreið, sem var ekið til norðurs, lent útaf veginum, endastungist og hafnað á hliðinni ofan í vegskurði. Ökumaðurinn var í bílbelti. Hann hlaut minniháttar meiðsli og var fluttur á heilsugæslustöðina í Borgarnesi til aðhlynningar. Hann er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og hlaut því viðeigandi meðferð hjá lögreglunni að lokinni læknisskoðun. Bifreiðin var mikið skemmd og var hún flutt á brott með kranabíl.
Um 30 ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur í sl. viku og reyndist einn þeirra vera sviptur ökuleyfi og annar var undir áhrifum fíkniefna. Úrvinnsla úr hraðamyndavélum af öllu landinu fer fram hjá Lögreglunni á Vesturlandi og skiluðu þær um 380 hraðamælingum í sl. viku. Á Vesturlandi voru hraðamælingarnar flestar við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls og í Hvalfjarðargöngunum eða rúmlega 200.
Skráningarnúmer voru tekin af 18 bifreiðum vegna tryggingar og skoðunarmála.