16 Ágúst 2016 13:30
Alls urðu 11 umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku, öll án teljandi meiðsla, enda fólk almennt með öryggisbeltin spennt. Erlendum ferðamanni á bílaleigujeppa fipaðist við aksturinn við Leirá í Hvalfjarðarsveit og var bíllinn „út um allan veg“ að sögn vegfaranda, áður en hann skældist yfir vegrið með miklum skruðningum. Ekki urðu meiðsl á fólki en bíllinn var fjarlægður stórskemmdur með kranabíl. Annar erlendur ferðamaður missti fólksbíl sinn útaf á Holtavörðuheiði í sl. viku, þrennt var í bílnum sem valt en engan sakaði enda allir í öryggisbeltunum. Þriðji erlendi ökumaðurinn missti stjórn á jepplingi sínum í lausamöl á holóttum malarvegi í Hvítársíðu. Fór bíllinn útaf og valt en ökumaður og farþegi sluppu án teljandi meiðsla. Komu erlendir ferðamenn við sögu í 8 af þessum 11 umferðaróhöppum sem að urðu í umdæmi LVL í sl. viku er það trúlega hæsta hlutfall ferðamanna í þessum málaflokki til þessa, en á þessum árstíma hefur þetta hlutfall verið um eða upp undir helmingur á undanförnum árum. Verkefni lögreglunnar á Vesturlandi vegna erlendra ferðamanna eru þó ekki að fullu talin því þeir koma einnig vaxandi við sögu í öðrum málaflokkum, svo sem í ökuhraðamælingum.
Alls voru 1005 ökumenn myndaðir fyrir hraðakstur af hraðamyndavélum lögreglunnar víðs vegar um landið en þar af voru 132 myndaðir af hraðamyndavélunum sem eru við Fiskilæk sunnan við Hafnarfjall og við Hagamel sunnan Laxár í Hvalfjarðarsveit. Þá mældu lögreglumenn í umferðareftirliti 32 ökumenn fyrir of hraðan akstur víðs vegar í umdæmi LVL. Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur í sl. viku.