15 Nóvember 2016 13:12
Alls urðu sjö umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, öll án mikilla meiðsla að því best er vitað. Erlendir ferðamenn misstu bílaleigubíl sinn útaf við Miðá í Dalabyggð. Þeir voru í öryggisbeltunum og sluppu með skrekkinn. Lítill jeppi fór útaf í hálku og valt á Vestfjarðavegi í norðanverðri Bröttubrekku um sl. helgi. Tveir menn voru í bílnum og voru þeir fluttir til aðhlynningar á heilsugæslustöðina í Búðardal. Þá valt fólksbíll ofan við Borgarnes og var erlendur ökumaður hans fluttur til aðhlynningar á heilsugæslustöðina í Borgarnesi. Lítill fólksbíll flaut upp í mikilli rigningu á Snæfellsnesvegi um sl. helgi og rann útaf og valt. Tveir menn voru í bílnum og sakaði þá ekki en bíllinn var óökufær eftir veltuna.
Í sl. viku fékk lögreglan tilkynningu um mann sem hefði gengið í skrokk á sambýliskonu sinni þar sem þau voru í orlofsbústað í Borgarfirði ásamt börnum sínum. Lögreglan fór á staðinn ásamt fulltrúum barnaverndarnefndar Borgarbyggðar. Var maðurinn handtekinn og fluttur á lögreglustöð til yfirheyrslu og konan var flutt á heilsugæslustöð til aðhlynningar. Málið er hjá rannsóknardeild LVL.
Ætlað amfetamín, kannabis og læknadóp fannst við húsleit í kjallaraíbúð á Akranesi um sl. helgi. Fjórir piltar voru handteknir og færðir til yfirheyrslu, tveir þeirra voru undir lögaldri.
Maðurinn sem handtekinn var fyrir vopnað rán í apóteki Ólafsvíkur í sl. viku var úrskurðaður í farbann til 12. desember næstkomandi, játning liggur fyrir í málinu.
Tveir ungir ökumenn voru teknir á 82 km hraða í gamla bænum í Borgarnesi sl. föstudagskvöld en þar er leyfður hámarkshraði 30 km á klukkustund. Talið er að þeir hafi verið í spyrnukeppni þegar þeir voru teknir. Piltarnir verða ákærðir yfir athæfið.
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur ítrekað lagt til við sveitarstjórn Borgarbyggðar að lækka leyfðan hámarkshraða á Borgarbrautinni þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst. En víðast hvar í bænum er 30 km hámarkshraði sem og í öllum íbúðahverfum bæjarins.