6 Desember 2016 14:55

Lögreglan hefur tekið upp aukið eftirlit með umferðinni í kringum grunnskóla og leikskóla í umdæminu. Athugað er með ökuhraða og hvort að allir séu að nota réttan öryggisbúnað, jafnt börn sem fullorðnir.

Alls urðu sex umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, flest minni háttar og án teljandi meiðsla að því best er vitað.

Erlendir ferðamenn veltu bílaleigubíl sínum á Holtavörðuheiði sl. fimmtudag eftir að hafa misst stjórn á bílnum í snjó og hálku. Sluppu þeir án teljandi meiðsla en bíllinn var óökufær og var fluttur á brott með kranabíl.

Einn ökumaður var tekinn fyrir akstur án ökuréttinda og er hann einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Erlendir ferðamenn voru í vandræðum á litlum bílaleigubílum á Arnarvatnsheiði og á lokuðum fjallvegum á Snæfellsnesi. Lögreglan kallaði út þjónustuaðila þeim til aðstoðar. Voru ferðamennirnir ýmist fastir í snjó eða að hluta til utan vegar. Aðspurðir sögðust þeir ekki hafa tekið eftir því að umræddir vegir væru merktir lokaðir fyrir umferð.