4 Október 2016 14:30
Samtals urðu átta umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku. Harðasti áreksturinn varð þegar sjúkrabíll í forgangsakstri lenti á litlum jeppa sem verið var að beygja af Vesturlandsvegi inn á Hvítárvallaveg sl. föstudag. Í því umferðarslysi voru allir í öryggisbeltum og því fór mun betur en áhorfðist í fyrstu.
Tveir erlendir ferðamenn slösuðust minniháttar er bílaleigubíll þeirra fór útaf og valt við Háls á Skógarströnd í gær. Voru þeir fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsið á Akranesi.
Fjórar kínverskar stúlkur sluppu með skrekkinn er þær lentu út í Hraunhafnará á Snæfellsnesi á bílaleigubílnum sínum, enda voru þær allar í öryggisbeltum, bíllin fór í loftköstum út í á en hélst á hjólunum. Sú sem að ók hafði fengið ökuskírteinið sitt í apríl og ekki ekið mikið síðan. Kvaðst hún hafa fylgt leiðbeiningum frá „Google maps“ en samt endað út í ánni.
Í dagbók lögreglunnar eru í sl. viku skráð þrettán tilvik varðandi dýrin okkar stór og smá. Þetta eru tilkynningar allt frá „hundur bítur hund“ upp í að tilkynnt sé um að ekið hafi verið á skepnur á vegunum og þær drepist. Auðvitað er slæmt að kindur og lömb séu á vegsvæðum en hættulegastir eru stórgripirnir sem oftast eru hestar sem að sleppa út úr girðingum en nautpeningur hefur líka sloppið út þó það sé mun sjaldnar. Í þessum tilvikum reynir lögreglan að bregðast fljótt við og sjá til þess að gripunum sé komið inn í næstu girðingar svo ekki skapist frekari hætta.
Hraðamyndavélarnar sem unnið er úr hjá Lögreglunni á Vesturlandi tóku myndir af 957 ökumönnum víðs vegar á landinu fyrir of hraðan akstur í sl. viku. Þar af tóku myndavélarnar sem eru við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls myndir af 245 ökumönnum. Í eftirlitsferðum sínum í umdæminu tóku lögreglumenn síðan 23 ökumenn fyrir of hraðan akstur og einn þeirra var sviptur ökuleyfinu á staðnum enda var hann tekinn á 152 km hraða, hinir óku flestir á rúmlega 100 km hraða.