30 Ágúst 2016 11:51
Aðeins urðu 5 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku og telst það vera vel sloppið miðað við undanfarnar vikur. Ökumaður bifhjóls hlaut minniháttar meiðsl er hann féll á Snæfellsnesvegi við Emmuberg á Skógarströnd í gær en hin óhöppin voru öll minniháttar og án meiðsla á fólki.
Hvimleið tjón verða oft á bílastæðum, sérstaklega á stórum bílastæðum við verslanir og fyrirtæki. Því miður er stundum stungið af frá slíkum málum og hægt er að fullyrða að sjaldnast er það svo að viðkomandi ökumaður, sem hlut á að máli, verði ekki var við óhappið eða utaníkeyrsluna en að sjálfsögðu kemur það líka fyrir. Situr þá bíleigandinn eftir með tjónaðan bíl og viðgerðarkostnað sem hann þarf sjálfur að borga. Oft gefa vitni sig fram á vettvangi eða tilkynna atvikin til lögreglu og stundum skilja menn eftir upplýsingar á miða undir rúðuþurrku á tjónaða bílnum með nafni vitnis og jafnvel bílnúmer þess sem að keyrir utan í eða veldur tjóninu. Þá gerist það einnig að lögreglan hefur uppi á tjónvaldi vegna sjáanlegrar ákomu á bílnum hans sem passar við tjónið á hinum bílnum hvað varðar lit og staðsetningu. Það varðar að sjálfsögðu við lög að stinga af frá umferðaróhappi og eru menn sektaðir fyrir slíkt ef það sannast.
Engir ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur í umdæminu í sl. viku.
Alls voru teknar myndir af 1303 ökumönnum fyrir of hraðan akstur í sl. viku. Þar af voru 216 myndir teknar með hraðamyndavélinni sem staðsett er við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls. Þá tók lögreglan um 50 ökumenn fyrir of hraðan akstur í umferðareftirliti í umdæminu.