11 Janúar 2016 08:58
Vikan hefur nýst lögreglumönnum vel til að sinna umferðareftirliti og til að yfirfara, hreinsa og laga tæki og búnað auk þess að vinna við frágang mála.
Karlmaður á Höfn var kærður um helgina fyrir að vera með kannabis í vörslum sínum.
Kona úlnliðsbrotnaði á laugardag þegar hún rann til í hálku á göngustíg við gatnamót Eyrarbakka- og Þorlákshafnarvegar. Hún var í hópferð á vegum ferðaskrifstofu þegar það gerðis. Sjúkraflutningamenn komu á staðinn og fluttu konuna á slysadeild Landspítala.
Í gær, sunnudag, valt bifreið á Grafningsvegi við Torfastaði. Ökumaður og tveir farþegar komust á eigin vegum til læknisskoðunar á Selfossi. Í ljós kom að meiðsli voru minni háttar. Vegurinn var flugháll og varasamur til aksturs.
Seint á fimmtudagskvöld var tilkynnt til lögreglu um hross í lausagöngu við Suðurlandsveg á móts við Ölfusborgir. Lögreglumenn fóru strax að sinna verkefninu en skömmu síðar kom tilkynning um að ekið hefði verið á hross á þessum sama stað. Hrossið fannst stuttu síðar rétt hjá slysstaðnum en reyndist óslasað. Lausaganga bjúfjár er óheimil í Ölfusi. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti hrossið komst út af girtu svæði sem það hafði verið á.
Í vikunni voru 18 ökumenn kærðir fyrir of hraðann akstur. Flestir á vegakafla frá Vík og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur að Höfn. Á þessari leið urðu nokkur alvarleg umferðarslys á síðasta ári. Þrír ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Einn þeirra var einnig grunaður um að hafa verið undir áfengisáhrifum.