11 Apríl 2016 10:43
Til marks um mikið umfang lögreglu á Suðurlandi í liðinni viku voru hátt í 300 skráð verkefni. Fjöldi fólks var á ferð í umdæminu um helgina hvort heldur til fjalla eða á láglendi.
Rétt fyrir klukkan fimm í gærdag barst tilkynning til 112 um bíl sem hafði farið í Holtsós undir Eyjafjöllum. Lögregla og tiltækar bjargir brugðust hratt við. Björgunarsveitir, kafarar, sjúkralið og þyrla fóru á staðinn þar sem talið var í fyrstu að fjórir hefðu verið í bílnum og eins þeirra saknað. Fljótlega kom í ljós að bílnum hafði verið ekið út í vatnið til björgunar fjórum mönnum sem lentu í hremmingum á kanóum. Fjórmenningarnir voru allir í flotvestum og var bjargað í land eftir að hafa verið 40 mínútur í vatninu. Allir voru nokkuð vel á sig komnir miðað við aðstæður en voru fluttir á sjúkrahús til skoðunnar. Við getum verið stolt af því hvað við eigum öflugt, ósérhlíft og samstillt fólk í björgunarsveitum, lögreglu, sjúkraliði, slökkviliði, 112 og öllum öðrum ónefndum sem að þessum málum koma.
Síðdegis á laugardag varð vélsleðaslys í Stóra Brandsgili við Landmannalaugar. Vélsleðamaður sem var að aka niður bratt gil lenti utan í kletti. Talið var að maðurinn hefði hlotið innvortis áverka. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til og flutti manninn á sjúkrahús í Reykjavík. Vélsleðamaðurinn fór í aðgerð á Landspítalanum og er á batavegi.
Uppúr klukkan 20 á laugardag barst tilkynning um bifreið sem var ekið fram af snjóhengju við Jökulheima. Farþegi í bifreiðinni lenti í framrúðu og fékk auk þess bakhnykk og hlaut af því miklar kvalir. Þyrla var ekki tiltæk til að flytja sjúklinginn á sjúkrahús. Björgunarsveitarmenn á Hellu fóru áleiðis og tóku við sjúklingnum og komu til móts við sjúkraflutningamenn sem fluttu manninn áfram til Reykjavíkur.
Eftir hádegi í gær var kallað eftir slökkviliði og lögreglu vegna sinuelds sem kom upp við sumarbústað í Flóa. Slökkviliðsmenn réðu niðurlögum eldsins. Tjón varð óverulegt.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur, einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og 60 fyrir hraðakstur.