30 Maí 2016 09:01
Fimm ökumenn bifhjóla féllu á bifhjólum sínum í þolaksturskeppni sem haldin var í landi Ásgarðs í Skaftárhreppi á tímabilinu frá klukkan 12 til 18 á laugardag. Atvikin áttu sér stað á mismunandi tímum í keppnisbraut. Þrír voru fluttir með sjúkrabifreið á sjúkrastofnun. Allir reyndust með beinbrot. Einn var fluttur með þyrlu á Landspítala. Hann var útskrifaður eftir rannsókn þar. Fimmti hlaut höfuðhögg og vankaðist. Hann var fluttur á heilsugæslustöðina á Kirkjubæjarklaustri til skoðunar.
Alvarlegt umferðarslys varð á Suðurlandsvegi á vegarkafla við Þjóðólfshaga um hádegi á þriðjudag. Ökumaður jepplings missti stjórn á bifreiðinni sem valt nokkrar veltur. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni. Öll þrjú voru flutt með þyrlu á slysadeild Landspítala. Þar kom í ljós að ökumaður var hálsbrotinn en farþegar með minni háttar áverka. Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi fer með rannsókn. Fólkið var allt frá Ítalíu.
Lögreglumenn á Höfn í Hornafirði höfðu afskipti af ökumanni í vikunni vegna hraðaksturs. Ekki var það eina brot mannsins því hann var að auki kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum og að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn og fyrir að hafa í vörslum sínum ávana- og fíkniefni.
Ferðamenn á húsbíl hugðust leggjast til næturhvílu á bifreiðastæði við sundlaugina á Höfn. Það er óheimilt samkvæmt lögreglusamþykkt. Fólkinu var gert að víkja af stæðinu.
Ungur ökumaður var kærður fyrir akstur utan vega í Skaftárhreppi í gær. Tilkynning barst til lögreglu á Kirkjubæjarklaustri að mannlaus bifreið væri út í miðri Geirlandsá við Prestbakka. Lögregla hóf eftirgrennslan. Umráðamaður bifreiðarinnar fannst fljótlega og viðurkenndi hann að hafa verið að aka um aura á svæðinu í eins konar rallakstri.
Ökumaður pallbíls spólaði í hringi á malarplani á Flúðum með þeim afleiðingum að steinar lentu á annari bifreið með þeim afleiðinum að lakk á henni skemmdist.
Tvö minni háttar fíkniefnamál komu upp í Árnessýslu í vikunni. Í öður tilvikinu fannst ein “jóna” hjá manni í Hveragerði. Hitt tilvikið var á Litla Hrauni þar sem fangaverðir fundu efni, sem talið er vera einhvers konar fíkniefni, á fanga. Efnin verða send í efnarannsókn á rannsóknarstofu.
Í vikunni voru 61 ökumaður kærður fyrir hraðakstur, þrír fyrir ölvunarakstur og þrír fyrir fíkniefnaakstur.