29 Júní 2015 10:15
Upp komst um fíkniefnaræktun í íbúðarhúsi á Höfn síðdegis á laugardag. Lögreglumenn þar höfðu haft grun um að þar færi fram ræktun. Farið var í leitina á forsendum húsleitarheimildar frá Héraðsdómi Suðurlands. Í íbúðinni fundust 16 plöntur sem voru tilbúnar til niðurskurðar og vinnslu. Umráðamaður íbúðarinnar gekkst við ræktuninni. Plönturnar verða sendar til rannsóknar hjá Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Buster, fíkniefnahundur lögreglunnar á Suðurlandi, og þjálfari hans voru á Höfn um helgina við fíkniefnaeftirlit á humarhátíðinni. Enginn fannst með fíkniefni á hátíðinni sem fór mjög vel fram í alla staði.
Lögreglumaður á Hvolsvelli fór í hálendiseftirlit á laugardag. Landhelgisgæslan lagði til þyrlu. Flogið var yfir Rauðuskál sem er norðaustan við Heklu þar sem ábendingar hafa borist um utanvegaakstur. Þar sáust för eftir ökutæki en engin ökutæki á svæðinu. Flogið var yfir friðlandið að Fjallabaki að Landmannalaugum. Búið er að opna veginn þangað frá Sigöldu. Samkvæmt upplýsingum skálavarða í Landmannalaugum var talsverð umferð þangað um helgina. Á svæðinu er snjór og mikil bleyta. Búast má við að ferðamenn eigi eftir að lenda í vandræðum vegna þess næstu daga fari þeir ekki að gát.
Á Selfossi komu upp þrjú minni háttar fíkniefnamál um helgina. Í tveimur tilvikum var grunur um neyslu í heimahúsum. Við leit þar fundust áhöld og neysluumbúðir undan kannabisefnum. Þriðja tilvikið kom upp þegar lögreglumenn óku á eftir bifreið í Gagnheiði. Afturhurð bílsins var opnuð og bréfsnifsi hent út. Innihald þess reyndist ver amfetamín. Farþegi í bifreiðinni viðurkenndi að hafa átt efnið.
Á tímabilinu frá klukkan 22:00 síðastliðins miðvikudags til klukkan 10:30 fimmtudags var farið inn í iðnaðarhúsnæði í Hrísmýri 5 á Selfossi og þaðan stolið tjaldvagni YMJ53 af gerðinni Saurium Space Ægir. Auk tjaldvagnsins var stolið þremur topplyklasettum, iðnaðarryksugu, hleðslutæki og tveimur tjaldstólum.
Um 250 lítrum af dísilolíu var stolið af vinnuvélum Ístaks við Suðurlandsveg í Hveradölum að kvöldi síðastliðins miðvikudags eða síðar um nóttina. Á staðnum hafði þjófurinn skilið eftir áhöld sem notuð voru við að ná olíunni af tönkum vélanna.
Skemmdir voru unnar á gömlum snjóbíl sem stóð á lóð við Ormsvelli á Hvolsvelli. Rúður og ljós voru brotin og skemmdir unnar á yfirbyggingu. Atvikið hefur átt sér stað á tímabilinu frá 18. júni til 23. júní síðastliðinn. Eigandi snjóbílsins ætlar að gera snjóbílinn upp og því er þetta nokkuð tjón fyrir hann.
Lögreglan á Suðurlandi biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um þessi þrjú mál að hafa samband í síma 444 2010 eða í tölvupóst á sudurland@logreglan.is.
Átta slys voru skráð í síðustu viku. Í einu tilvikanna brenndist maður á ökla. Hann hafði verið á gangi við hverinn Skjól ofan við sundlaugina í Hveragerði þegar jarðvegurinn gaf sig og fóturinn sökk í leirhver sem leyndist undir.
Einn ökumaður var kærður fyrir ölvunarakstur, einn fyrir fíkniefnaakstur og 77 fyrir hraðakstur.