26 September 2016 09:03
Einsdæmi og jafnfram gleðilegt að í síðustu viku voru engin hegningarlagabrot á borðum lögreglu á Suðurlandi.
Húsleit var gerð í íbúð á Höfn um helgina. Tveir karlmenn voru handteknir. Þeir framvísuðu hvítu dufti sem mennirinr sögðu vera fæðubótaefni. Einnig var lagt hald á nokkuð af sveppum. Mennirnir voru yfirheyrðir og látnir lausir að því loknu. Efni og sveppir verða sendir í efnarannsókn og niðurstaða úr henni mun skera úr um framhald málsins.
Kona var handtekin í Hveragerði á föstudag vegna gruns um að hún hefði í vörslum sínum fíkniefni. Í veski sem hún bar fannst lítilræði af amfetamíni. Konan var látin laus að lokinni yfirheyrslu.
Á þriðjudag kom upp eldur í óskráðri bifreið í sandgryfju skammt frá Ölfusréttum. Þegar slökkvilið Brunavarna Árnessýslu kom á vettvang var bifreiðin alelda. Bifreiðin var gömul fólksbifreið sem ekki var í umferð. Tveir unglingar höfðu verið að keyra bifreiðina í sandgryfjunni þegar eldur kom upp í mælaborði.
Þrettán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í vikunni en engin slys á fólki.
Í vikunni voru 49 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur, þrír fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, einn fyrir ölvunarakstur og fimm umráðamenn ökutækja fyrir að að vanrækja vátryggingarskyldu.