26 Október 2015 10:25
Um helgina fór fram flugslysaæfing á Hornafjarðarflugvelli þar sem æfð voru viðbrögð við brotlendingu farþegaflugvélar þar sem gengið var út frá því að 21 maður væri um borð. Lögreglustjórinn á Suðurlandi kom að þessari æfingu ásamst fleirum viðbragðsaðilum. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra setti upp æfinguna, sem tókst vel.
Lögreglumenn á Höfn voru kallaðir út seint á laugardagskvöld á veitingastað vegna manns sem svaf ölvunarsvefni á staðnum. Þegar hann var vakinn brást hann illa við og veittist að lögreglumönnum. Honum tókst að slá í andlit eins lögreglumannsins. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu þar sem hann svaf úr sér áfengisáhrifin.
Stúlka fótbrotnaði í síðustu viku er henni skrikaði fótur á blautu grasi við Stafafell í Lóni. Stúlkan var flutt til aðhlynningar og síðan með flugi til Reykjavíkur þar sem gert var að fótbrotinu.
Á föstudag öklabrotnaði kona við Jökulsárlón þegar hún hnaut um stein.
Bíleigandi á Selfossi kom á lögreglustöðina í vikunni og sagði að skráningarnúmerum hefði verið stolið af bifreið hans. Skömmu síðar kom hann aftur með þær upplýsingar að hann hefði séð númerin á svartri BMW bifreið á leið norður yfir Ölfusárbrú. Lögreglumenn hófu þegar leit að bifreiðinni og fundu á Suðurlandsvegi við Kögunarhól. Kona ók bifreiðinni og var ein á ferð. Við nánari skoðun reyndist hún undir áhrifum fíkniefna og svipt ökurétti. Bifreiðinni hafði verið stolið í Reykjavík. Konan var handtekinn og vistuð í fangaklefa á meðan rannsókn fór fram. Hún var látin laus að lokinni yfirheyrslu.
Karlmaður var handtekinn á Nesjavöllum grunaður um nytjastuld, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og að hafa ætlað að koma sök á annan mann. Hann var látinn laus að lokinni yfirheyrslu.