25 Júlí 2016 09:55
Lögreglan á Suðurlandi kom að 350 verkefnum í síðustu viku. Eftirlit var mjög öflugt. Gert var sérstaklega út á hálendið, uppsveitir Árnessýslu og á milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar í Hornafirði. Reynslan af þessu aukna eftirliti til viðbótar því sem fyrir er hefur gefið góða raun.
Mjög mikil umferð hefur verið í umdæminu og hún gengið vel þrátt fyrir ellefu umferðaróhöpp sem lögreglan kom að í vikunni. Öll voru minni háttar utan eitt sem varð á Suðurlandsvegi á vegarkafla við Ölfusborgir um sjö leytið í gærkvöldi þar sem fólksbifreið lenti fyrir jeppabifreið á austurleið. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var einn í bifreiðinni og slasaðist alvarlega. Í jeppabifreiðinni voru þrír sem hlutu minni háttar meiðsli og voru flutt til skoðunar á heilsugæslustöðina á Selfossi. Áreksturinn og aðdragandi hans er í rannsókn.
Lögreglu bárust margar tilkynningar frá vegfarendum um ýmislegt sem þeim þótti aðfinnsluvert í umferðinni. Brugðist var við þeim eins og hægt var. Í sumum tilvikum kom í ljós að á ferðinn voru ölvaðir ökumenn eða ökumenn undir áhrifum fíkniefna. Lögreglumenn eru ánægðir og mjög þakklátir þeim borgurum sem með þessum hætti hjálpa til við að allt megi ganga eins vel í umferðinni og mögulegt er.
Framundan er Verslunarmannahelgin og varla verður undantekning á að margt fólk verði á faraldsfæti á Suðurlandi. Lögreglan á Suðurlandi verður að venju með aukið eftirlit með umferð. Engar skipulagðar útisamkomur eru í umdæminu. Lögreglumenn á Suðurlandi verða á ferð og til taks vítt og breitt á sínu svæði, í sumarhúsabyggðum, tjaldsvæðum, hálendinu við Landeyjahöfn og annars staðar sem þörf verður á.
Lögreglan á Suðurlandi hvetur ökumenn að fara gætilega í umferðinni og sýna hver öðrum umburðarlyndi og þolinmæði í alla staði. Notið öryggsbeltin, ekki tala í síma nema með handfrjálsum búnaði, hafið nægilegt bil á milli ökutækja, gefið öðrum skýra vísbendingu, í tíma, um að til standi að stöðva ökutæki eða beygja. Stöðvið ekki í vegkannti nema þar sem það er öruggt og hindrar ekki aðra umferð. Markmiðið er slysalaus Verslunarmannahelgi. Við eigum það öll skilið.