24 Ágúst 2015 08:59
Lögreglunni á Suðurlandi bárust tíu kærur vegna þjófnaðar í liðinni viku. Flest þjófnaðarmálanna eru upplýst þar á meðal þjófnaður á peningum í Landmannalaugum. Það mál upplýstist þegar ungur karlmaður kom í lögreglustöðina á Hvolsvelli í gær til að skila peningum sem hann sagðist hafa stolið úr baðhúsinu. Hann var yfirheyrður um brotið. Málið verður að lokinni rannsókn sent til ákærusviðs til frekari meðferðar.
Átta þjófnaðarmálanna áttu sér stað á Selfossi. Karlmaður var handtekinn grunaður um verðmætaþjófnað úr ólæstum bílum. Sá hafði undanfarið komið oft við sögu lögreglu. Vegna meintra síbrota hans var gerð krafa um að hann yrði úrskurðaður í síbrotagæslu. Það gekk eftir og Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði manninn í gæslu í fjórar vikur.
Tveir útlendir karlmenn voru handteknir fyrir búðahnupl á Selfossi. Þeir voru yfirheyrðir og látnir lausir að því loknu.
Erlendur ferðamaður var kærður fyrir að aka utan vegar við Gýgukvísl. Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri höfðu afskipti af ökumanninum sem viðurkenndi brotið en bar fyrir sig að hann teldi heimilt að aka á auðum sandinum.
Lögreglu bárust tólf tilkynningar um slys á fólki. Þar á meðal voru þrjú hestaslys þar sem knapar féllu af hestum sínum. Önnur slys voru flest vegna þess að fólk hrasaði á göngu á ferðamannastöðum. Í nokkrum tilvikanna hlaust af beinbrot.
Húsleit var gerð hjá karlmanni á Selfossi vegna gruns um að hann hefði fíkniefni í vörslum sínum. Hjá honum fundust kannabisefni og duft sem talið er vera amfetamín. Maðurinn viðurkenndi að eiga efnin.
Tvei ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur í vikunni og 78 fyrir hraðakstur.