21 September 2020 10:00
Þann 16. og 17. september voru 21 stór ökutæki skoðað s.k. vegaskoðun þar sem lögreglumenn framkvæma úttekt á ákveðnum atriðum sem skoða má með sjónskoðun tækjanna. Langflest ökutækin reyndust í góðu lagi en þó var gerð athugasemd hjá einum ökumanni en kvörðun ökurita bifreiðar hans reyndist útrunnin. Sama átti við um ökuréttindi annars ökumanns sem stöðvaður var, þau höfðu runnið út og hann þar með ekki með gild réttindi til að stjórna vörubifreið. Á þriðja ökutækinu var ljósabúnaðar ekki í lagi og fékk sá áminningu um að koma því í lag. Almennt er ekki sektað nema fleiri en eitt ljós sé bilað eða að áminningu um að lagfæra ljósin sé ekki sinnt.
Tvær fólksbifreiðar voru einnig boðaðar til skoðunar. Önnur vegna ástands hjólbarða og hin þar sem að framan á hana vantaði skráningarnúmer. Ökumanna þessara bifreiða bíður einnig viðeigandi sekt vegna þessara brota.
2 ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum ölvaðir. Annar á Suðurlandsvegi austan við Selfoss en hinn innanbæjar á Hellu. Beðið er niðurstöðu úr rannsókn blóðsýna og fara málin áfram til ákærusviðs þegar þær berast.
40 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Helmingur þeirra, 20 manns voru mældir á þjóðvegi 1 við Vík og Klaustur, 1 á Mýrum vestan Hafnar, 7 í Rangarþingi og Ásahreppi og 12 vestan Þjórsár. Einn þessara ökumanna var á 50 km/klst kafla innanbæjar á Hvolsvelli og þrír á 50 km/klst kafla í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Einum þessara þriggja var gert að hætta akstri en í honum mældist áfengi þó svo að það væri undir „kærumörkum“.
Aðfaranótt 20. september var farið inn í ólæsta bíla við veiðihús við Rangárstíg vestan Hellu. Rótað var í bílunum og einhverjum fjármunum stolið. Hafi einhver vitneskju um málið hvetjum við viðkomandi til að koma þeim til lögreglu. Jafnframt er ástæða til að hvetja fólk til að læsa bílum sínum, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.
Að kvöldi 15. september var lögreglu tilkynnt um flugslys þegar flugvél náði ekki inn á flugbraut við Forsæti í Flóa. Fyrsta tilkynning barst í gegn um gervihnattasendi í vélinni sjálfri og var staðsetningin í fyrstu talin við Selfossflugvöll en það leiðréttist síðan. Flugmaðurinn kvaðst hafa sloppið ómeiddur frá atvikinu og hafði komið flugvél sinni í skýli þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Hann skoðaður af sjúkraflutningsmönnum til öryggis og varð niðurstaðan sú sama af þeirri skoðun. Einhverjar skemmdir urðu á vélinni, sem er heimasmíðuð, og eru tildrög slyssins til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Að lokum er rétt að minna á útivistartímann en hann tók breytingum 1. september s.l. Ákvæði Barnaverndarlaganna er svohljóðandi:
Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.
Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.