4 Apríl 2016 08:54
Lögreglumenn á Hvolsvelli voru kallaðir til um helgina vegna manns sem hafði í hótunum við einstkakling sem hann var í nálgunarbanni við. Hann verður kærður fyrir brot gegn nálgunarbanni.
Aðfaranótt laugardags fóru lögreglumenn í eftirlit með vínveitingastöðum í uppsveitum Árnessýslu. Á einum staðnum voru þrjú ungmenni sem voru undir 18 ára aldri. Barnaverndarnefnd var tilkynnt um atvikið og forstöðumaður vínveitingarstaðsins kærður fyrir brot á lögum um veitingastaði, gististaði og veitingahald.
Á föstudag varð vinnuslys á Selfossi þegar maður féll úr stiga á steingólf. Fallið var um tveir metrar. Maðurinn var að koma gifsplötu fyrir í lofti þegar slysið varð. Hann fann til eymsla í baki og var flutter á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunar. Eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins kom á vettvang og tók út vinnusvæðið.
Síðdegis á föstudag var slökkvilið kallað út vegna elds í íbúðarhúsi á Selfossi. Í ljós kom að pottur hafði gleymst á eldavél, hlaust af því minni háttar tjón.
Frá fimmtudegi til dagsins í dag hafa 35 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem fór hraðast mældist á 157 km hraða á vegarkafla við Kirkjubæjarklaustur.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að vera ekki með ökuritaskífu eða aksturskort við akstur ökutækis sem ber aðhafa ökurita. Sekt við því broti er 80 þúsund krónur. Einn ökumaður var kærður fyrir að hafa verið á breyttu ökutæki en ekki fært það til skoðunar.