4 Janúar 2021 15:47
Lögreglan á Suðurlandi óskar íbúum, ferðamönnum og öðrum sem í umdæminu búa eða um það fara gleðilegs og heillaríks árs. Í heildina gengu áramótin vel fyrir sig og ekki komu upp stór mál eða alvarleg. Tveir einstaklingar gistu fangageymslur aðfaranótt Nýársdag vegna slagsmála og ölvunar í uppsveitum Árnessýslu. Þeir fóru frjálsir ferða sinna þegar áfengisvíma þvældist ekki lengur fyrir þeim.
Í liðinni viku voru 20 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt um vegi í umdæminu og af þeim eru 13 á ferðinni á svæðinu við Vík og Kirkjubæjarklaustur. 2.228 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt um umdæmið á liðnu ári en 3.924 árið á undan. Mestu munar þar um þann fjölda erlendra ferðamanna sem ekki skiluðu sér til landsins á síðasta ári. Rétt er að hafa í huga að árið 2018 voru 1.667 stöðvaðir vegna hraðakstursbrota og því er það stífa eftirlit sem við höfum verið að sinna að skila sér í þeim fjölda sem nú er undir. Áfram verður haldið með umferðareftirlitið enda ljóst að með því að sinna því vel er lögreglan að bjarga mannslífum. Flest alvarleg slys í umferðinni eru tengd með einhverjum hætti hraðakstri eða ástandi ökumanna.
Í liðinni viku voru 3 ökumenn kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna eða lyfja, einn þeirra reyndist þegar sviptur ökurétti og annar var með smáræði af kannabisefnum í bílnum auk hvíts efnis sem bíður greiningar. Aðrir þrír eru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Einn þeirra, kona á áttræðisaldri, gisti fangaklefa á Selfossi þar til hún var orðin skýrsluhæf vegna ölvunar en hún ók bifreið sinni austur Suðurlandsveg þann 30. desember s.l. og aftan á bifreið sem stóð á beygjuakrein að Hellisheiðavirkjun. Ökumaður þeirrar bifreiðar hugðist aka inn að virkjuninni og beið þess að aðvífandi umferð úr vestri færi framhjá áður en hann æki þá leið.
Á Nýársdag var lögreglu tilkynnt um að stungið hafi verið á alla hjólbarða bifreiðar við íbúðarhús við Álalæk á Selfossi. Um töluvert tjón er að ræða og er þess óskað að þeir sem telja sig geta veitt upplýsingar sem leitt geti til þess að brotið upplýsist hafi samband við lögreglu.
Lögregla og sjúkralið ásamt björgunarsveitum og þyrlu LHG voru kölluð út þann 2. janúar þegar maður féll á höfuðið á Sólheimajökli. Um var að ræða ferðamann sem búinn var ísbroddum en hjálmlaus og missti hann meðvitund við fallið. Hann kom síðan til meðvitundar og gat gengið niður af jöklinum sjálfur og því var dregið mjög úr viðbragði vegna slyssins.
5 umferðarslys voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku. Um eitt þeirra hefur verið fjallað hér á undan en þann 2. Janúar varð árekstur milli tveggja fólksbifreiða á Biskupstungnabraut. Tvennt var í annarri bifreiðinni, erlendir ferðamenn, en ökumaður einn í hinni. Sá var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar og er talinn beinbrotinn en meiðsl hinna eru ekki alvarleg. Þá fauk tengivagn á hliðina þar sem hann var á ferð um Hvalnesskriður þann 3. Janúar. Ekki urðu slys á fólki en eignatjón er töluvert.