6 Mars 2018 21:16
Lögreglan á Austurlandi hefur undanfarið verið fylgjast sérstaklega með ólöglegri lagningu ökutækja, notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar, bílbeltanotkun ökumanna og farþega, of hröðum akstri og þeirra sem fara ekki eftir umferðarmerkjum. Samtals voru 98 aðilar kærðir fyrir að virða ekki þessi umferðarlög þar af 14 fyrir að nota ekki bílbelti, 25 fyrir ólöglega lagningu ökutækja, flestir á Egilstöðum, 4 ökumenn voru kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu og 29 ökumenn fyrir of hraðan akstur en sá sem hraðast ók var á 123 km/klst þar sem er 90 km. hámarkshraði.
Ökumaður var handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur og nytjastuld á bifreið á Reyðarfirði. Einnig var annar ökumaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis, þá var ökumaður kærður fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum á Fáskrúðsfirði.
Einn aðili var handtekinn með kannabis í bifreið sinni í Neskaupstað og einnig fannst lítilræði af kannabisefni á viðkomandi.
Erlendur ökumaður sýndi af sér gríðarlegt gáleysi þegar hann ók yfir blindhæð á hringvegi í Hamarsfirði og fór vinstra megin yfir hæðina en örin vísar á hægri akrein. Bifreiðin skemmdist verulega á hægri hlið og einnig brotnaði hliðarspegill þeim megin. Lögreglumenn á Höfn voru fengnir til að stöðva ökumanninn og fá útskýringar á þessu háttalagi. Ökumaðurinn sagðist ávalt hafa farið vinstra megin yfir allar blindhæðir á sínu ferðalagi um landið og taldi að þar sem örin vísaði þýddi að hætta væri framundan á þeirri akrein. Ökumanninum var gerð grein fyrir hversu gríðarlega hættu hann hafi skapað með þessu aksturslagi og var vinsamlegast beðinn að halda sig réttu megin það sem eftir lifði ferðar hér á landi.