7 September 2020 15:30
Erlendur einstaklingur sem ruddist inn í íbúðarhús á Selfossi undir miðnætti þann 1. september s.l. gat litlar skýringar gefið á athæfi sínu þegar hann var yfirheyrður daginn eftir. Hann átti skv. fyrirliggjandi plöggum að vera í sóttkví milli skimana á þessum sama tíma. 5 lögreglumenn komu að málinu og voru þeir settir í svokallaða úrvinnslusóttkví á meðan sýni úr þeim handtekna var rannsakað. Í ljós kom að viðkomandi sýni var neikvætt og losnuðu lögreglumennirnir þar með úr sóttkví. Maðurinn hefur gengist undir sektargerð að upphæð 50 þúsund krónur vegna brots síns og telst málinu þar með lokið.
Annar erlendur aðili sem braut gegn sóttvarnarreglum þann 26. ágúst með því að nýta sér leigubílaþjónustu og skrá sig í gistingu á hótel í umdæminu vitandi vits að hann væri smitaður af Kórónaveiru gekkst undir sektargerð í liðinni viku að upphæð 350 þúsund krónur. Máli hans er þar með lokið.
40 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Alls hafa þá 1749 verið kærðir fyrir hraðakstursbrot það sem af er ári.
5 ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið ölvaðir, undir áhrifum fíkniefna eða lyfja hvoru tveggja. Í einu tilfellinu var bifreið ekið utan í aðra við Seljalandsfoss og síðan af vettvangi án þess að gera viðvart um tjónið. Ökumaður og farþegi umræddrar bifreiðar voru handteknir skammt frá og færðir í fangageymslur á Selfossi þar sem þeir voru yfirheyrðir þegar þeir voru í ástandi til þess. Málið fer áfram til ákæruvalds til venjubundinnar meðferðar.
3 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur bifreiða sinna án þess að hafa til þess viðeigandi handfrjálsan búnað. Þrír ökumenn reyndust vera að aka sviptir ökurétti og einn hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Aðrir þrír voru sektaðir fyrir að aka án þess að nota öryggisbelti við aksturinn. Þeir voru allir stöðvaðir á umferðarpósti sem lögreglumenn á Höfn höfðu sett upp þar innabæjar.
Þann 2. september voru björgunarsveitir og þyrla landhelgisgæslu kallaðar til aðstoðar manni sem fest hafði fót í sandbleytu í Sandavatni. Nokkurn tíma tók að losa manninn og var hann að endingu fluttur til Reykjavíkur til skoðunar á sjúkrahúsi. Meiðsl hans munu ekki alvarleg en hann var búinn að vera lengi í köldu vatninu.
Þann 5. september aðstoðuðu björgunarsveitir erlenda ferðamenn sem fest höfðu bifreið sína í Tungná. Þeir höfðu sjálfir komið sér á þurrt með viðlegubúnað sinn og því ekki frekar hætta á ferðum þar. Deginum áður höfðu skálaverðir í Húsadal verið fengnir, á dráttarvél, til að aðstoða ferðamenn sem fest höfðu bifreið sína í Steinholtsá.