14 September 2020 10:30
37 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt. Flestir á Suðurlandsvegi. Af þeim voru 3 á 140 km/klst hraða eða meira og einn þeirra á 157 km/klst hraða. Þar sem hann ók bifreið sinni um þjóðveg 1 til móts við Hellisholt í Svetarfélaginu Hornafirði. Sá gekkst undir sektargerð að upphæð 230 þúsund krónur og var sviptur ökurétti í 2 mánuði.
Engin af þeim ökumönnum sem stöðvaðir voru til að kanna með ástand þeirra reyndist ölvaður eða er grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Þá er einungis eitt umferðaróhapp tilkynnt tl lögreglu og var það það smávægilegt að aðilar voru aðstoðaðir við að fylla út tjónstilkynningu á vettvangi.
Þann 11. september var tilkynnt um ferðaþjónustuaðila með ferðamenn á fjórhjólum í utanvegaakstri við Krókslón. Tilkynnandi sendi lögreglu ljósmyndir af vettvangi og er málið til rannsóknar.
Þann 7 september aðstoðuðu björgunarsveitir bónda í Árnessýslu en tveir nautgripir hans höfðu fallið ofan í haughús. Þeir hífðir upp og baðaðir úr hreinu vatni en virðist ekki hafa orðið meint af volkinu.
Aðfaranótt sunnudagsins s.l. hringdi maður inn á neyðarlínu og tilkynnti um að ferðafélagar hans hefðu numið hann brott og hygðust vinna honum mein. Hann gat litlar skýringar gefið á staðsetningu sinni og lagði á og svaraði ekki síma eftir það. Greining á samskiptum við fjarskiptakerfi leiddi til þess að farið var að svipast um eftir manninum í Þjórsárdal og nokkru síðar fundust ferðafélagar mannsins á bensínlausum bíl. Ástand þeirra var misgott. Þeir höfðu aðra sögu að segja en félaginn. Björgunarsveitir voru kallaðar til leitar og að auki var LHG fengin með þyrlu í leitina en kalsaveður var um nóttina. Áhöfn þyrlunnar fann manninn austanvert við Fossá um kl. 07:30 fáklæddan en nokkuð hressan. Allir voru mennirnir fluttir á lögreglustöðina á Selfossi en fóru frjálsir ferða sinna eftir því sem leið á daginn og sá síðasti um kvöldmatarleitið. Var þá komin nokkuð góð mynd á málið sem að lögum verður ekki fellt undir refsimál og verður rannsókn þess hætt.