13 Janúar 2020 11:33
Um kl. 14:00 í gær varð árekstur milli lögreglubifreiðar sem ekið var af Klausturvegi á Kirkjubæjarklaustri inn á hringtorg, þar sem Klausturvegur tengist Suðurlandsvegi, og jeppabifreiðar sem ekið var vestur Suðurlandsveg og öfugu megin inn í hringtorgið. Svo virðist sem ökumaður jeppabifreiðarinnar, sem er erlendur ferðamaður, hafi misst stjórn á bifreið sinni þegar hann nálgaðist hringtorgið og lent öfugu megin við umferðareyju sem skilur að akstursstefnur og síðan beint framan á lögreglubifreiðina. Lögreglumaðurinn, sem var einn á ferð, var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús en útskrifaður þaðan í gærkvöldi og talinn óbrotinn en töluvert marinn. Ökumaður og farþegi jeppabifreiðarinnar sluppu ómeidd.
14 önnur umferaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu á Suðurlandi í liðinni viku án þess þó að í þeim hafi menn slasast alvarlega.
Í liðinni viku voru 16 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Einn þeirra er jafnframt grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiðar sinnar en sá var stöðvaður á 86 km/klst hraða á 50 km/klst kafla á Selfossi.
Lögregla og sjúkraflutningamenn voru kölluð til að sveitabæ í Rangárvallasýslu í gær þegar skot hljóp úr fjárbyssu í framhandlegg manns sem var að aðstoða þann sem á byssunni hélt við að aflífa kind. Kúlan mun hafa setið eftir í handleggnum og var maðurinn fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Reykjavík.
3 ökumenn sem lögreglumenn höfðu afskipti af reyndust vera að aka bifreiðum sínum þrátt fyrir að vera sviptir ökurétti. 4 ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis, 3 þeirra í Árnessýslu og einn á Höfn. 3 eru grunaðir um að hafa verið að aka bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna. (Þar með talinn þessi sem getið var um hér í hraðaksturskaflanum)
Í liðinni viku voru björgunarsveitir kallaðar til vegna 39 ferðamanna sem fastir voru vegna veðurs við Langjökul. Um það mál hefur verið fjallað sérstaklega í fjölmiðlum og litlu við það að bæta. Málið er í rannsókn.
Skráningarnúmer voru tekin af fólksflutningabifreið þar sem hún reyndist ótryggð í umferð laugardaginn 11. janúar s.l. við Seljalandsfoss. Ökumaðurinn erlendur en með íslensk ökuréttindi útgefin en rekstrarleyfi fyrirtækisins runnin út á árinu 2018.