30 Mars 2020 11:13
Allir þekkja orðið umræðuna um Covid19 og viðbrögð við þeim vágesti. Upplýsingarnar getur almenningur sótt inn á vef almannavarna www.covid.is og þar er að finna allt það nýjasta sem snýr að faraldrinum. Bæði tölfræði og ekki síður leiðbeiningar um það hvernig við eigum að gera hlutina. Upplýsingarnar á vefnum eru á níu tungumálum og því gott að leiðbeina þeim sem þess þurfa um það.
Á Suðurlandi er aðgerðastjórn virk og kemur saman á hverjum degi. Í henni eiga sæti Sóttvarnalæknir umdæmisins , fulltrúar HSU, þar með talið sjúkraflutninga, verkefnisstjóri almannavarna á Suðurlandi, fulltrúar svæðisstjórna björgunarsveita, fulltrúar Rkí á Suðurlandi, formenn almannavarnanefnda á Suðurlandi, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar í Árnessýslu og svo yfirstjórn lögreglunnar. Auk þess hafa einstakir aðilar verið kallaðir inn vegna sérstakra verkefna. Fundir aðgerðastjórnarinnar eru haldnir með fjarfundabúnaði og er það gert til að reyna að tryggja að ekki sé hætta á því að stjórnendurnir falli allir út í einu í sóttkví eða veikindi. Við þurfum jú að gæta okkar líka á því að fylgja ströngustu reglum um sóttkví og einangrun. Þá hafa verið settar upp 7 vettvangsstjórnir sem allar hafa fundað og eru undirbúnar til að takast á við þau verkefni sem upp kunna að koma, hver á sínu svæði, þegar og ef þarf.
Ábendingar hafa borist um að íbúar umdæmisins vilji hafa upplýsingar um það hvar á Suðurlandi smitaðir einstaklingar séu staðsettir. Því er til að svara að gefin hefur verið út samræmd stefna af hálfu sóttvarnarlæknis og landlæknis um að brjóta þessar upplýsingar ekki frekar niður en gert er inn á vefnum Covid.is. Færa má fyrir því rök að um sé að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar og við að sjálfsögðu fylgjum þessum ákvörðunum.
Skv. upplýsingunum frá í gær eru 105 staðfest smit á Suðurlandi að Vestmanneyjum meðtöldum og 876 eru skráðir í sóttkví.
Þá að helstu verkefnum vikunnar sem var að líða.
Í gær varð slys um það bil 2 km austan við Veiðivötn þegar vélsleði með ökumanni og farþega fór fram af snjóhengju. Ökumaður sleðans varð síðan fyrir mannlausum sleða sem einnig fór fram af hengjunni en ökumaður hans hafði náð að kasta sér af áður en sleðinn fór fram af hengjunni. Við þetta hlaut ökumaður fyrri sleðans nokkur meðisli og var fluttur, af samferðamönnum sínum, á þotu aftan í öðrum sleða,áleiðis á móti sjúkrabifreið og síðan með honum í þyrlu LHG. Viðkomandi var með meðvitund en upplýsingar um meiðsl hans og þess sem var á sleðanum með honum liggja ekki fyrir.
Þann 28. mars s.l. varð einnig slys á vélsleða þegar 10 ára drengur lenti undir sleða sem hann ók sjálfur og festist í belti hans. Hann var fluttur með þyrlu, sem var þá þegar í loftinu skammt undan, til aðhlynningar á sjúkrahúsi og er talinn axlarbrotinn eftir.
Eldur kom upp í húsi skammt frá Stokkseyri um miðjan dag á laugardag. Um er að ræða gamalt hús einangrað með hálmi og öðrum slíkum eldfimum efnum. Unnið hefur verið að því í nokkurn tíma að gera að upp. Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu slökkti eldinn en reikna má með að húsið sé að mestu ónýtt. Tæknideild lögreglu Höfuðborgarsvæðisins var við vettvangsrannsókn í gær en eldsupptök eru ókunn og unnið að rannsókn þeirra.
2 ökumenn eru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna í Árnessýslu í vikunni. Þeir frjálsir ferða sinna að töku blóðsýna lokinni. Höfð voru afskipti af 2 öðrum ökumönnum grunuðum um ölvun við akstur, einnig í Árnessýslu. Öðrum þeirra hafði orðið það á að reka bifreið sína utan í aðra bifreið og valda á henni tjóni.
18 eru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Einn þeirra var mældur á 149 km/klst hraða á 90 km vegi undir Eyjafjöllum.