20 Desember 2016 14:26
Tvö heimilisofbeldismál komu upp í umdæmi LVL í sl. viku, annað á Akranesi og hitt í Borgarnesi. Börn voru á báðum heimilunum og var viðkomandi barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um málin.
Einn ökumaður var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna í sl. viku.
Fimm umferðaróhöpp urðu í umdæmi LVL í sl. viku, öll án teljandi meiðsla að því best er vitað enda allir með öryggisbeltin spennt.
Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri er bíll fór útaf Akrafjallsvegi sunnan Akrafjalls í vikunni. Bíllinn valt ekki en fór nokkurn spöl meðfram veginum og hafnaði loks ofan í vegskurði. Ökumann og farþega sakaði ekki en þeir voru báðir í öryggisbeltunum. Stóðu þeir á þaki bílsins er lögreglan kom á staðinn en töluvert vatn var í skurðinum. Kranabíll var fenginn til að ná bílnum upp úr skurðinum.
Ökumaður missti fólksbíl sinn útaf í hálku á Snæfellsnesveginum við Brúarland sl. fimmtudag og valt bíllinn heilan hring og staðnæmdist hálfur ofan í vegskurði. Ökumann og farþega sakaði ekki en þeir voru báðir í öryggisbeltunum. Ætluðu þeir þó til öryggis að fara í læknisskoðun.
Aðfaranótt sunnudagsins var farið inn í afgreiðslu Hótel Bifrastar og stolið þar nokkrum munum og lítilræði af peningum. Lögreglan hafði uppi á þjófunum sem að voru tveir saman og við yfirheyrslur þá játuðu þeir verknaðinn. Þýfinu höfðu þeir skipt á milli sín en það fannst á heimilum þeirra og var því komið til skila.
Það er ekki einungis á Hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu sem umferðin eykst, sama á við um svæði utan Hringvegarins. Vegagerðin birtir nú í fyrsta sinn samanburð á umferðinni á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Austfjörðum. En um umferðin um Snæfellsnes jókst t.d. um 25 prósent í nóvember og útlit er fyrir að umferðin á svæðinu í ár verði 28 prósentum meiri en í fyrra. Heldur minni aukning er á hinum svæðunum en mjög mikil eigi að síður.