12 September 2017 10:09
37 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Tveir þeirra reyndust á yfir 140 km/klst hraða, báðir í uppsveitum Árnessýslu, annar á 141 en hinn á 143 km/klst hraða. 5 voru á hraðabilinu frá 130 til 139 km/klst. 5 ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis á þessu tímabili.
Kona slasaðist þegar hún féll af hesti við Svínafell í Öræfum. Hún var flutt með sjúkrabifreið til Hafnar í Hornafirði en er ekki talin alvarlega slösuð. Þá brotnaði kona á fæti þegar hún féll á göngustíg við Kerið í Grímsnesi. Önnur kona er talin brotin á hönd eftir að hafa dottið á bílastæði við Skógarfoss. Allir þessir aðilar eru erlendir ferðamenn á ferð sinni um landið. Karlmaður slasaðist þegar jarðvegur gaf sig undan kornvalsi þar sem verið var að valsa korn á byggakri í Árnessýslu. Valsinn féll að dráttarvél sem ætlað var að knýja hann en maðurinn varð þar á milli og hlaut áveka á brjóstkassa við það. Hann var fluttur með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík. Þá slasaðist maður þegar hann ók bifreið sinni á mikilli ferð á vegrið við Ölfusárbrú og á brúnni sjálfri. Hann kastaði sér síðan í ána en var bjargað á land af björgunarsveitarmönnum skömmu síðar. Hann er enn á gjörgæslu Landspítala Háskólasjúkrahúss.
Ökumaður pallbíls var stöðvaður við akstur á Suðurlandsvegi við Djúpadal að kvöldi 8. september s.l. með 3 hesta á kerru sem hann dró með bifreiðinni. Kerran var ljóslaus með öllu og við athugun kom í ljós að hún hafði síðast verið færð til skoðunar á árinu 2008. Ökumanni var fylgt með lestina á Hvolsvöll þar sem skráningarnúmer voru tekin af kerrunni og hún þar með kyrrsett.