22 Mars 2021 11:10
Vegna eldgoss sem hófst í Geldingadölum á Reykjanesskaga s.l. föstudagskvöld fóru lögreglumenn á Suðurlandi til vinnu við lokanir á Suðurstrandavegi og voru við þá vinnu fram á laugardag. Lögregla hér býr vel að því leiti að eiga nokkuð af gasmælum til mælinga á mengun frá gosstöðvum og því kom það sér vel að geta fylgst með stöðu mála hvað mengun varðar í nágreni gosstöðvanna og í þéttbýlisstöðum í umdæminu. Gasmengun í umdæmi okkar hefur ekki farið yfir heilsuverndarmörk eftir að gos hófst. Hægt er að fylgjast með stöðu loftmengunar á vef Umhverfisstofnunar www.loftgaedi.is
Þann 16. mars voru viðbragðsaðilar kallaðir til eftir að aðili féll af hestbaki við hesthúsahverfið í Reykjadal ofanvert við Hveragerði. Hinn slasaði var illa áttaður þegar komið var á vettvang, hafði fengið mikið höfuðhögg og reyndist hjálmur hans brotinn. Hann fluttur til aðhlynningar á HSU
Þann 17. mars missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Þykkvabæjarvegi með þeim afleiðingum að bifreiðin valt og stöðvaðist síðan á árbakka Hólsár og að hluta út í henni. Töluvert viðbragð var kallað út vegna slyssins en meiðsl reyndust minniháttar og var gert að þeim á HSU. Ökumaður var einn í bílnum.
Ökumaður á ferð um Suðurlandsveg nokkuð austan við Jökulsárlón þann 19. Mars varð fyrir því óhappi að aka á hreindýr á veginum. Dýrið drapst og töluvert tjón varð á bifreiðinni sem þó reyndist ökufær eftir slysið. Ökumaður bifreiðarinnar var að eigin sögn lemstraður eftir en taldi sig ekki alvarlega meiddan.
Fjórir einstaklingar sem lögregla stöðvaði við akstur eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna. Þrír þeirra voru í Árnessýslu en einn á Höfn.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna í liðinni viku. Tveir ökumenn reyndust vera með útrunnin ökuréttindi og aðrir tveir urðu uppvísir af því að nota ekki ökumannskort í ökurita bifreiða sinna.
29 ökumenn voru kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum of hratt í liðinni viku. Flestir á Suðurlandsvegi en einnig all nokkrir á aðliggjandi stofnvegum s.s. á Biskupstungnabraut.